Bergur Þór Ingólfsson er fæddur árið 1969 og ólst upp í Grindavík. Hann útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1995 og hefur síðan þá verið afkastamikill í íslensku leikhúsi. Hlutverk sem hann hefur leikið á sviðum atvinnuleikhúsanna eru yfir 40 að tölu auk ótal hlutverka í kvikmyndum og sjónvarpi. Í þrígang hefur Bergur hlotið Grímuna, Íslensku leiklistarverðlaunin, fyrir leik sinn en alls hefur hann verið tilnefndur yfir 15 sinnum til þessara sömu verðlauna fyrir leik, leikstjórn og leikritun.