Steiney Skúladóttir

Steiney Skúladóttir er spunaleikkona, rappari og sketsahöfundur. Hún er fædd í Reykjavík 1990 og sýndi snemma áhuga á að feta sömu leið og sótti hin ýmsu leiklistarnámskeið og lék í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum frá unga aldri.

Árið 2014 gekk hún til liðs við Hraðfréttir sem virkilega óþægilega menningarfréttakona, byrjaði í rappsveitinni Reykjavíkurdætrum og á námskeiðum í spuna hjá Improv Ísland.
Steiney er enn að grúska í öllum þessum hlutum nema í stað Hraðfrétta hafa þættirnir Kanarí tekið við þar sem hún skrifar og leikur sketsa. Hún sýnir spuna alla miðvikudaga í Þjóðleikhúskjallaranum með Improv Ísland og Reykjavíkurdætur halda áfram að kanna ótroðnar slóðir.

Að telja upp öll þau hlutverk sem Steiney hefur brugðið sér í með Kanarí og Improv Ísland væri ógjörningur og eru þau jafn ólík og þau eru mörg.
Steiney hefur gert sína eigin sjónvarpsþætti, Framapot og Heilabrot, ásamt Sigurlaugu Söru Gunnarsdóttir. Hún hefur verið kynnir í beinum útsendingum í sjónvarpi eins og í Söngkeppni framhaldsskólanna, Skrekk og Samfés.