Berglind Alda Ástþórsdóttir

Berglind Alda Ástþórsdóttir er leikkona, fædd árið 1999. Hún stundar nám á leikarabraut í Listaháskóla Íslands og kemur til með að útskrifast vorið 2024.

Berglind hefur mikla reynslu í sjónvarpi og er hún þá helst þekkt fyrir hlutverk sitt sem Lilja í þáttaseríunni Venjulegt Fólk 4, svo eitthvað sé nefnt. Einnig hefur hún leikið mikið fyrir Áramótaskaupið (2019-2021) á RÚV og sá um Krakkaskaupið með Mikael Emil árin 2019-2021. Krakkaskaupið fékk tvær tilnefningar og hlaut verðlaun fyrir barna- og fjölskylduefni ársins á Sögum, verðlaunahátíð barnanna árið 2020. Nú eru þau þáttastjórnendur á hinum vinsæla spurningaþætti Krakkakviss á Stöð 2 og er önnur sería í bígerð. Saman hafa þau líka verið kynnar á Skrekk (2017-2019), tekið þátt í skrifum og leik fyrir sketsaþættina Vandró (2020) og komið fram sem kynnar og veislustjórar við ýmis tilefni.

Eftir að hafa útskrifast úr Verzlunarskóla Íslands og tekið þar þátt í söngleikjum og leiksýningum, skrifaði og lék Berglind í farsæla leikritinu Fyrsta Skiptið (2018),ásamt fimm öðrum ungmennum. Fyrsta Skiptið var m.a. valin ein af bestu sýningum ársins hjá Morgunblaðinu. Sýningin var svo keypt af Sjónvarpi Símans og síðar af breskum leikhópi.

Eftir Fyrsta Skiptið hélt Berglind áfram að spreyta sig á leiksviðinu og því næst var það sem eitt af aðalhlutverkum í leikverkinu Ðe Lónlí Blú Bojs (2019)sem hlaut mikið lof í Bæjarbíói. Einnig skrifaði hún, ásamt Höskuldi Þór, og lék í leiksýningunni Hlið við Hlið (2021), en sú sýning var byggð á lögum Friðriks Dórs og lifði lengi vel í Gamla Bíói.