Kristín Eysteinsdóttir lauk meistaragráðu í leikstjórn frá Goldsmiths, University of London árið 2007 en áður hafði hún lokið BA námi í dramatúrgíu frá Árósarháskóla árið 2002. Kristín hefur leikstýrt yfir 20 leiksýningum í atvinnuleikhúsum og var fastráðinn leikstjóri við Borgarleikhúsið frá 2008 – 2014. Árið 2008 var hún valin leikstjóri ársins á Grímunni fyrir sýninguna Sá ljóti og var einnig tilnefnd til til sömu verðlauna árin 2010, 2012 og 2013. Kristín hefur jafnframt leikstýrt við Útvarpsleikhúsið og starfað sem dramatúrg og aðstoðarleikstjóri við fjölda sýninga og hefur gegnt fjölmörgum ábyrgðarstöðum með stjórnarsetu og formennsku í ýmsum stjórnum og nefndum sem tengjast leiklist, menntun og útgáfu.
Kristín var ráðin leikhússtjóri Borgarleikhússins árið 2014 og gegndi þeirri stöðu til ársins 2020. Undir hennar stjórn náði Borgarleikhúsið eftirtektarverðum árangri bæði listrænt og rekstrarlega, aðsóknarmet í leikhúsið voru slegin og leikhúsið hlaut Grímuna, íslensku sviðslistaverðlaunin, fyrir sýningu ársins öll þau ár sem hún var leikhússtjóri. Einnig ferðaðist Mávurinn, sem Borgarleikhúsið setti upp árið 2015, á þrjár stórar erlendar leiklistarhátíðir í Kína, Finnlandi og Póllandi.
Kristín var ráðin í stöðu prófessors við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands í ágúst 2022. Þá lauk hún nýverið við fyrstu stuttmynd sína, Samræmi, og er um þessar mundir að undirbúa sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd sem er komin vel á veg í þróun.