Aldís Amah Hamilton

Aldís Amah Hamilton er fædd í Þýskalandi árið 1991 en hefur búið á Íslandi síðan 1994. Hún er af íslenskum og afrísk-bandarískum ættum og því jafnvíg á bæði íslensku og ensku, ásamt því að hafa ágætan skilning á þýsku. Aldís fór með hlutverk Maríu í verkinu Saga úr Vesturbænum 14 ára, þegar Hagaskóli setti söngleikinn upp. Sú reynsla opnaði augu hennar fyrir söngnámi en bæði Valgerður Guðnadóttir og Hrólfur Sæmundsson þjálfuðu hana fyrir hlutverkið. Hún hóf söngnám við Söngskóla Reykjavíkur en eftir fyrsta árið sótti hún einungis einkatíma í söng og gerir enn. 

Leikferill Aldísar almennilega af stað þegar hún ákvað óvænt að reyna við inntökuprufurnar við Listaháskóla Íslands árið 2013. Hún var þá á leið í kínverska viðskiptafræði við Háskóla Íslands en eftir að henni var boðið pláss á leikarabraut skólans ákvað hún að láta slag standa og útskrifaðist árið 2016. Fyrir útskrift lék hún í þáttaröðinni Fangar (Prisoners) og var einnig komin með hlutverk í jólasýningu Þjóðleikhússins undir leikstjórn Gísla Arnars (Vesturport). Þar steig hún formlega sín fyrstu skref á sviði og lék Desdemónu í Óþelló. Hún var einnig í Álfahöllinni og Húsinu en samhliða leikhúsinu lék hún í jóla-auglýsingu Icelandair ásamt því að fara með hlutverk í kvikmyndinni Vargur eftir Börk Sigþórsson.Síðan þá hefur Aldís aðallega leikið fyrir framan myndavélina en mun stíga aftur á fjalir leikhúss í vetur, í þetta sinn í Borgarleikhúsinu sem eitt aðalhlutverk söngleiksins Jagged Little Pill. 

Aldís hefur tekið þátt í ýmsum sögulegum verkefnum en árið 2019 var hún beðin um að stíga í hlutverk Fjallkonu Reykjavíkur á þjóðhátíðardegi Íslendinga. Var það í fyrsta sinn sem lituð manneskja bar þann titil og vakti það mikla athygli og lukku. Í kvikmyndagerð má nefna þáttaröðin Brot (þar sem Aldís lék persónuna Dísu) en hún var fyrsta íslenska samstarfsverkefni streymisveitunnar Netflix, í samstarfi við RÚV. Stuttu seinna vann Aldís á ný með Netflix en í þetta sinn var það fyrsta Netflix Original þáttaröð Íslands sem bar heitið Katla og kom út árið 2021. Síðasta þáttaröð Aldísar braut líka blað í sögu kvikmyndagerðar á Íslandi en Svörtu Sandar voru fyrsta (skáldaða) þáttaröð Íslands með manneskju af blönduðum uppruna í aðalhlutverki, fyrsta þáttaröðin skrifuð af manneskju með blandaðan uppruna og fyrsta þáttaröðin sem tryggði konu af blönduðum uppruna tilnefningu til Edduverðlaunanna. Þáttaröðin hefur verið endurnýjuð og verður seinni helmingur hennar skotinn veturinn 2023.

Aldís hefur unnið við talsetningu og ljáð ýmsum teiknimyndapersónum rödd sína. Þar má telja Heljarþröm í Lego: The Movie 2, Namarii í Disney myndinni Raya and the Last Dragon, Dolores í stórmyndinni Encanto og Izzy í Bósi Ljósár. Hún hefur leikið í auglýsingum fyrir stór erlend og innlend fyrirtæki á borð við Burt’s Bees, Showtime, Marriott Bonvoy og Icelandair. Hún hefur einnig talsett auglýsingar hérlendis, m.a. fyrir Icelandair en árið 2020-2021 var hún fastráðin sem rödd þess fyrirtækis. Hún hefur lesið inn á ýmsar hljóðbækur fyrir hönd Storytel og Bókafélagsins.

Aldís skrifaði handritið að báðum seríum Svörtu Sanda ásamt Baldvini Z og lögreglumanninum Ragnari Jónssyni en Elías Kofoed Hansen gekk til liðs við teymið í seinni hluta þáttanna. Þættirnir fengu afar góðar móttökur og voru frumsýnir á alþjóðlegum vettavangi á kvikmyndahátíðinni Berlínale. Voru þeir þá valdir inn sem ein af sex þáttaröðum en fjöldi innsends efnis taldi á annað hundrað. Í þáttaröðinni lék hún aðalhlutverkið (Anítu Elínardóttur) og mun halda því áfram.
Fleiri langvarandi verkefni hjá leikkonunni eru tölvuleikurinn Echoes of the End sem er í smiðju Myrkur Games. Fyrirtækið er íslenskt sprotafyrirtæki og fer Aldís með hlutverk aðalpersónunnar Ryn ásamt fleiri íslenskum leikurum. Verkefnið er það fyrsta síns eðlis hérlendis og hefur vakið mikla athygli í heimi leiklistar og tölvuleikja á Íslandi en Koch Media varð aðalfjárfestir fyrirtækisins árið 2021 og tryggði þannig útgáfu leiksins á næstu misserum.

Fyrir utan leiklistina er Aldís ötul talskona dýravelferðar og beitir sér af miklum krafti fyrir bættri stöðu dýra í samfélaginu. Hún er einnig mikil baráttukona jafnréttis og minnihlutahópa og reynir eftir fremsta megni að leggja sitt af mörkum til að bæta stöðu þeirra sem þurfa sem mest á aðstoð að halda.

Raddprufur