Aldís Amah Hamilton

Aldís Amah Hamilton er fædd í Þýskalandi árið 1991 en hefur búið á Íslandi síðan 1994. Hún er af íslenskum og bandarískum ættum og því jafnvíg á bæði íslensku og ensku, ásamt því að hafa ágætan skilning á þýsku.

Aldís fór með hlutverk Maríu í verkinu Saga úr Vesturbænum 14 ára, þegar Hagaskóli setti söngleikinn upp. Sú reynsla opnaði augu hennar fyrir söngnámi en bæði Valgerður Guðnadóttir og Hrólfur Sæmundsson þjálfuðu hana fyrir hlutverkið. Hún hóf söngnám við Söngskóla Reykjavíkur en eftir fyrsta árið sótti hún einungis einkatíma í söng og gerir enn.Leikferill Aldísar almennilega af stað þegar hún ákvað óvænt að reyna við inntökuprufurnar við Listaháskóla Íslands árið 2013. Hún var þá á leið í kínverska viðskiptafræði í Háskóla Íslands en eftir að henni var boðið pláss á leikarabraut skólans ákvað hún að láta slag standa og útskrifaðist árið 2016.
Fyrir útskrift lék hún í þáttaröðinni Fangar (Prisoners) og var einnig komin með hlutverk í jólasýningu Þjóðleikhússins undir leikstjórn Gísla Arnars (Vesturport). Þar steig hún formlega sín fyrstu skref á sviði og lék Desdemónu í Óþelló. Hún var einnig í Álfahöllinni og Húsinu en samhliða leikhúsinu lék hún í jóla-auglýsingu Icelandair. Hún fór með hlutverk í kvikmyndinni Vargur, í þáttaröðunum Fangar, Loforð, Venjulegt Fólk og nýlegast Dísu í þáttaröðinni Brot (Valhalla Murders). Brot var fyrsta íslenska samstarfsverkefni streymisveitunnar Netflix, í samstarfi við RÚV. Aldís vinnur á ný með Netflix en í þetta sinn að Netflix Original þáttaröð sem ber heitið Katla og á að koma út 2021. Í vetur fór hún meðal annars með hlutverk Rósu í þáttaröðinni Vitjanir og mun hún vinna að samstarfsverkefnum í Þjóðleikhúsinu með ólíkum leikhópum.

Aldís hefur unnið við talsetningu og ljáði teiknimyndapersónunni Heljarþröm rödd sína í Lego: The Movie 2 ásamt því að talsetja persónu Namarii í Disney myndinni Raya and the Last Dragon. Hún hefurleikið í auglýsingum fyrir erlend og innlend fyrirtæki á borð við Burt’s Bees, Showtime og Icelandair. Hún hefur einnig talsett auglýsingar hérlendis, m.a. fyrir Icelandair en hún er fastráðin sem rödd þess fyrirtækis. Hún talsetti kynningarmyndband fyrir Crossfit æfinguna “Dóttir” og las inn á hljóðbókina Flæðarmál fyrir Storytel.
Aldís hefur unnið við skrif á handriti ásamt Baldvin Z og lögreglumanninum Ragnari Jónssyni. Áætlað er að hefja tökur á þáttaröðinni Svörtu Sandar úr handritinu vorið 2021. Fleiri langvarandi verkefni hjá leikkonunni eru tölvuleikurinn The Darken sem er í smiðju Myrkur Games. Fyrirtækið er íslenskt sprotafyrirtæki og fer Aldís með hlutverk aðalpersónunnar Ryn ásamt fleiri íslenskum leikurum. Verkefnið er það fyrsta síns eðlis hérlendis og hefur vakið mikla athygli í heimi leiklistar og tölvuleikja á Íslandi.

Raddprufur