Andrean Sigurgeirsson

Andrean er dansari og danshöfundur og er að taka sín fyrstu skref sem leikari. Hann hóf dansnámið seint að aldri, 18 ára gamall, en var með 10 ára bakgrunn í bardagalistum. Hann útskrifaðist með B.A. gráðu í samtímadansi úr Listaháskóla Íslands og fékk stuttu síðar samning hjá Íslenska dansflokknum og er fastráðinn dansari þar.

Á ferli sínum hefur fengið að vinna með mörgum þekktum danshöfundum en hann hefur dansað í verkum eftir Ernu Ómarsdóttur, Damian Jalet, Anton Lachky, Pieter Ampe, Elinu Pirinen, Eszter Salamon, Tom Weinberger og hefur komið fram á sviði víðsvegar um heiminn. 

Einnig hefur hann unnið í mörgum sjálfstæðum sýningum ýmist eftir hann sjálfan eða sem dansari, leikari eða danshöfundur. Hann hefur tekið þátt í fjölda tónlistarmyndbanda t.a.m. hjá Vök, Mammút, Ólafi Arnalds, Hatara og nýlegast hjá Björk undir leikstjórn Andrew Thomas Huang. 

En eflaust þekkja margir Andrean sem einn af dönsurunum í andkapítalíska, teknóbandinu Hatara og hefur verið að pönkast með þeim á mörgum tónleikum og gjörningum þ.á.m. Eurovision 2019. 

Nýlega kláraði hann tökur í kvikmynd eftir Terrence Malick og í væntanlegu kvikmyndinni The Damned. 

Andrean hlaut Grímuverðlaunin árið 2018 sem Sproti ársins og hefur tvisvar verið tilnefndur sem Dansari ársins. 

Andrean er íslenskur og indónesískur og talar indónesísku, ensku og auðvitað íslensku.