Birna Pétursdóttir

Birna Pétursdóttir er leikkona, handritshöfundur og framleiðandi. Hún fæddist á Egilsstöðum 1988 og lauk BA námi í leiklist frá Rose Bruford College í London 2012 en hún hefur komið víða við frá útskrift.

Birna hefur leikið fjölmörg hlutverk í leikhúsi, meðal annars hjá Leikfélagi Akureyrar og í Þjóðleikhúsinu.

Birna hlaut Grímuna sem leikkona ársins í aukahlutverki árið 2021 fyrir leik sinn í söngleiknum Benedikt Búálfur í uppsetningu Leikfélags Akureyrar. Árið 2017 stofnaði Birna ásamt fleirum leikhópinn Umskiptinga sem hlaut tilnefningu til Sprota Ársins 2018 fyrir frumsamið verk sitt Framhjá rauða húsinu og niður stigann. Ári síðar hlutu Umskiptingar aftur tilnefningu til Grímunnar í flokki Barnasýninga ársins fyrir Galdragáttina, sem Birna skrifaði ásamt hópnum.

Birna hefur mikla reynslu af dagskrárgerð og framleiðslu sjónvarpsefnis en Birna var einn umsjónarmanna Landans á RÚV 2017-2018 og leikstýrði og framleiddi heimildaþáttaröðina Í góðri trú sem sýnd var á RÚV 2020. Árið 2022 skrifaði Birna Krakkaskaupið fyrir RÚV ásamt Árna Beinteini Árnasyni.

Í miðri Covidkrísunni skrifaði Birna, ásamt Árna Beinteini og Vilhjálmi Bragasyni, gamanverkið Fullorðin sem sló í gegn hjá Leikfélagi Akureyrar og hefur verið sýnt fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúskjallaranum það sem af er leikárinu.

Birna hefur mikla reynslu af lestri hljóðbóka fyrir bæði Storytel og Forlagið og auk þess að hafa leikið í og lesið inn á auglýsingar af ýmsu tagi. 

Þá er Birna einnig langt komin í meistaranámi í Þjóðfræði við Háskóla Íslands.