Kristinn Óli S. Haraldsson

Kristinn Óli S. Haraldsson (1999) byrjaði ungur að leika á sviði og í kvikmyndum. Sem barn fór hann með hlutverk í kvikmyndinni Bjarnfreðarson (2009) og tók þátt í uppsetningu Þjóðleikhússins á sýningunum Óvitar (2013) og Fjalla-Eyvindur og Halla (2015). Á síðustu árum tók Kristinn Óli þátt í söngleiknum We Will Rock You í Háskólabíó, fór með hlutverk í uppsetningu Leikfélags Akureyrar á Benedikt Búálfi og í söngleiknum Hlið við Hlið sem settur var upp í Gamla bíó 2021. Þá fór Kristinn Óli með hlutverk í kvikmyndinni Agnes Joy sem kom út árið 2019.

Kristinn Óli hefur komið víða við í listinni þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur m.a. skapað sér gott orð sem tónlistarmaður undir nafninu Króli. Árið 2017 gaf hann út lagið B.O.B.A, með félaga sínum JóaPé, sem sló rækilega í gegn. Kristinn Óli hefur gefið út fimm plötur síðan árið 2017 og átti þar á meðal mest seldu plötu ársins 2018. Hann hefur auk þess fimm sinnum hlotið Hlustendaverðlaunin og fjórum sinnum fengið Íslensku tónlistarverðlaunin og bæði samdi og flutti lokalag áramótaskaupsins árið 2018.

Kristinn Óli hóf leiklistarnám við Listaháskóla Íslands haustið 2022.