Lúkas Emil Johansen

Lúkas Emil Johansen er fæddur árið 2005. Hann ákvað þriggja ára að verða leikari, fékk að fara í sínar fyrstu áheyrnarprufur átta ára gamall og landaði sínu fyrsta hlutverki sem langafi í Óvitum, sem sýndir voru árið 2013-2014 í Þjóðleikhúsinu. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann mikla reynslu af leiklist. Á meðal fyrri verkefna eru sjónvarpsþættirnir Vitjanir sem sýndir voru á RÚV, Brot sem birtust á RÚV og Netflix, auk þess sem hann fór með burðarhlutverk í Loforði, sjónvarpsþáttum sem sýndir voru á RÚV árið 2017. Kvikmyndin Víti í Vestmannaeyjum kom út árið 2018, en þar var Lúkas Emil í aðalhlutverki sem söguhetjan Jón. Í framhaldinu birti RÚV sjónvarpsseríu sem byggði á kvikmyndinni. Lúkasi Emil og Erlen Ísabellu var boðið að stýra Stundinni okkar veturinn 2019 til 2020. Þau voru fyrstu börnin sem báru ábyrgð sem umsjónarmenn þáttanna frá því að þeir hófu göngu sína veturinn 1966. 

Árið 2022 fór hann með aðalhlutverk í stuttmyndinni The Ocean Listens To No One sem framleidd var af Sensor og Ghetto Film School í Bandaríkjunum. Á ferlinum hefur Lúkas Emil komið að ólíkum verkefnum, á sviði og fyrir framan myndavél. Árið 2022 lék hann í sjónvarpsþáttunum Hvítar lygar fyrir RÚV sem enn eru óbirtir, fór með aðalhlutverk í stuttmyndinni Stormur sem er einnig óbirt og kvikmyndinni Þrot. Á sama ári lék hann einnig í útvarpsleikritinu Vetrarfrí árið 2022, auk annarra verkefna. Hann tók þátt í uppfærslu Þjóðleikhússins á Ronju ræningjadóttur veturinn 2018 til 2019, fór með burðarhlutverk í stuttmyndinni Pabbahelgi árið 2017, aukahlutverk í sjónvarpsþáttunum Fólkinu í blokkinni árið 2013 og síðar sama ár lék hann í Áramótaskaupinu. Hann hefur einnig talsett teiknimyndir, var til að mynda Róbert í Hvolpasveitinni og ljáði Pugsley í Addams Family rödd sína. Þá hefur hann leikið í fjölda auglýsinga. Lúkas Emil útskrifaðist úr Leiklistarskóla Borgarleikhússins árið 2020. Áður hafði hann tekið þátt í hinum ýmsu leiklistarnámskeiðum og leikhópum.