Oddur Júlíusson

Oddur er leikari búsettur í Reykjavík. Hann útskrifaðist leikarabraut LHÍ vorið 2013 en hafði áður stundað nám við Listdansskóla Íslands í nútímadansi. Eftir útskrift, sumarið 2017 sótti hann sér nám í spuna hjá spunaleikhúsinu iO Theatre í Chicago og stundar Brasilískt Jiu Jitsu hjá Mjölni.
Strax eftir útskrift úr Listháskóla Íslands hóf hann störf við Þjóðleikhúsið þar sem hann er nú fastráðinn leikari. Hann hefur leikið fjölmörg hlutverk í söngleikjum, barnasýningum, klassískum verkum og nútímaverkum. Þar má m.a. nefna Lýsander í Jónsmessunæturdraumi, Behemot í Meistarinn og Margaríta, Ágúst í Hafinu og Damis í Loddaranum. Í Þjóðleikhúsinu hefur hann einnig unnið sem aðstoðarleikstjóri við ýmsar uppfærslur. Oddur hefur einnig verið meðlimur í spunahópnum Improv Íslands frá stofnun hópsins (2014) og sýnt með þeim vikulega í Þjóðleikhúskjallaranum síðan þá. Hann kenndi einnig spuna við Listaháskóla Íslands haustið 2018.
Oddur hefur leikið í nokkrum verkefnum fyrir kvikmyndir og sjónvarp. Hann lék í þáttaseríunni Pabbahelgar, kvikmyndunum Málmhaus, Vargur og Gullregn. Hann fer einnig með hlutverk Óttars í þáttaseríunni Ráðherrann sem verður sýnd haustið 2020. Oddur hefur tvisvar sinnum leikið í Áramótaskaupinu.Oddur hefur frá unglingsaldri verið meðlimur í ýmsum hljómsveitum / verkefnum og er sjálflærður á gítar, trommur og söng. Oddur var meðlimur í hljómsveitinni The Heavy Experience sem starfaði á árunum 2010-2013 og gaf út eina smáskífu og eina breiðskífu. Ásamt því hefur hann samið og spilað tónlist fyrir leikverk í Þjóðleikhúsinu.

Oddur hefur þrisvar sinnum verið tilnefndur til Grímunnar; Tónlist ársins fyrir leikritið Ofsi í Þjóðleikhúsinu (2015), Leikari ársins í aukahlutverki fyrir leikritið ≈ [um það bil] í Þjóðleikhúsinu (2016), Barnasýningu ársins fyrir leikritið Oddur og Siggi í Þjóðleikhúsinu. (2018)

Raddprufur