Ólafur Ásgeirsson

Ólafur Ásgeirsson (f. 1990) útskrifaðist af Leikarabraut Sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands árið 2015 og fluttist í kjölfarið til New York þar sem hann lærði Michael Chekhov leiklistartækni í The Michael Chekhov Acting Studio og spunatækni við UCB spunaskólann. Ólafur hefur leikið í kvikmyndunum Órói (2010) og Taka 5 (2019), auk þess sem hann hefur leikið í fjölda þáttasería, stuttmynda og auglýsinga. Ólafur er einn stofnenda Leikfélagsins PóliS sem gerir leikhús á pólsku fyrir pólska áhorfendur á Íslandi. Leikfélagið PóliS vann til Grímuverðlauna sem Sproti ársins fyrir sýninguna Co za poroniony pomysł (2021) sem sýnd var í Tjarnarbíó, en Ólafur lærði pólsku fyrir þá sýningu og var einnig tilnefndur til Grímunnar sem leikari ársins í aðalhlutverki fyrir leik sinn. Ólafur lék þá einnig í The Last Kvöldmáltíð (2021) í Tjarnarbíó sem tilnefnd var til fernra Gímuverðlauna. Ólafur skrifaði handrit að leikritinu og fer með hlutverk í Tu jest za drogo sem fer á fjalirnar í Borgarleikhúsinu leikárið 2021/22. Ólafur er starfandi leiklistarkennari á öllum skólastigum og hefur sýnt vikulegar spunasýningar í Þjóðleikhúskjallaranum með Improv Ísland frá árinu 2016.

Raddprufur