Ragnar Ísleifur Bragason

Upplýsingar og bókanir á bokanir@modurskipid.is

Hvernig verðum við gömul?

45 mínútna vinnustaðafyrirlestur á léttu nótunum þar sem þátttakendur æfa sig í að vera gamlir. 

,,Hvernig verðum við gömul?” er léttur og skemmtilegur fyrirlestur með húmorísku ívafi sem hentar vel vinnustaðateymum til hópefli og virkja sköpunar- og lífskrafinn!. Hann er fluttur af Hrefnu Lind Lárusdóttur og Ragnari Ísleifi Bragasyni og virkar sem hvatning fyrir fólk á öllum aldri til að rannsaka líf sitt. Við munum sýna æfingar og fá þátttakendur í lið með okkur meðan á fyrirlestrinum stendur til að öðlast bæði líkamlegan og andlegan skilning á því hvernig það er að verða gamall og kosti þess. Í raun og veru  æfa þátttakendur sig í að vera gamlir og öðlast með því nýtt sjónarhorn. 

Fyrirlestrinum er einnig ætlað að varpa sýnileika á líf eldra fólks og hversdagslíf þeirra. Okkur finnst mikilvægt að stíga inn í þá staðreynd að við munum eldast og styrkja okkur í því sambandi fremur en að forðast tilhugsunina um ellina. Eftir að hafa hlýtt á fyrirlesturinn og tekið þátt í æfingunum er það von okkar að fólki líði betur með aldur sinn og hlakki til að taka á móti ellinni.

Rétt er að taka fram að okkur þykir mikilvægt að nálgast efniviðinn á léttu nótunum þótt vissulega sé verið að vinna með viðfangsefni sem sumir ef til vill forðast að hugsa um dags daglega. Sem dæmi má nefna að í fyrirlestrinum komum við inn á hina ýmsu kosti þess að eldast, eins og til dæmis þá staðreynd að geta leyft sér að svindla sér fram fyrir í biðröð og þykjast svo bara vera utan við sig og gamall. Eins getur gamalt fólk leyft sér að leysa vind við hvaða kringumstæður sem er án eftirmála.