Sævar Helgi Bragason

Sævar Helgi Bragason er rithöfundur, dagskrárgerðarmaður, fyrirlesari og alþýðufræðari. Hann er jarðfræðingur að mennt, stjörnufræðikennari og hefur hlotið ýmis verðlaun fyrir framúrskarandi miðlun vísinda til almennings, sér í lagi barna. Sævar hefur gefið út fimm vísindabækur fyrir bæði börn og fullorðna. Undanfarin ár hefur hann starfað við dagskrárgerð í útvarpi (Rás 1 og Rás 2) og sjónvarpi þar sem hann var umsjónarmaður Hvað höfum við gert? (2019) og Hvað getum við gert? (2021), þáttaraðar um loftslagsmál sem framleiddir voru af Sagafilm og sýndir á RÚV. Einnig hjá KrakkaRÚV þar sem hann sagði Krakkafréttir og hélt úti útvarpsþætti fyrir krakka um vísindi og tækni. Haustið 2020 endurvakti hann ásamt öðrum Nýjasta tækni og vísindi á RÚV. Sævar hefur mikla reynslu af lifandi og skemmtilegri fræðslu og skemmtunum um vísindi og náttúruna fyrir fólk á öllum aldri.

Sævar hefur reynslu af því að stýra fundum og umræðum sem tengjast ýmsum samfélagslegum málefnum. Einnig hefur hann talað inn á sjónvarpsþætti og ýmislegt annað.

Upplýsingar og bókanir á bokanir@modurskipid.is

Skemmtimennt um stjörnuhiminninn

Flestir hafa einhvern tímann á ævinni horft til himins og vonandi fundist stjörnurnar fallegar. En hvað eru stjörnurnar? Hvað eru stjörnumerki? Vissir þú að þú ert sennilega ekki í því stjörnumerki sem þú taldir þig vera? Í erindinu er á léttan og skemmtilegan hátt fjallað um það sem blasir við þér á heiðskírum himni þegar þú liggur í heita pottinum í sumarbústaði á veturna. Sýni og leyfi fólki að handleika loftsteina, t.d. stein frá tunglinu sem hittir alltaf í mark meðal bæði krakka og fullorðinna.

Fræðsla um norðurljós og stjörnuhiminninn

Hugsað fyrir útlenda ferðamenn á flakki um Ísland. Hvað eru norðurljós og hvernig verða þau til? Hvernig virka norðurljósaspár? Hvað þarf að hafa í huga til að elta norðurljósin? Hvað annað er hægt að skoða og sjá á stjörnuhimninum?

Fræðsla um umhverfismál

Grænn lífstíll – Hvað er grænn lífstíll? Þarf maður að hætta að ferðast, keyra og borða kjöt til að lifa umhverfisvænu lífi? Er dýrt og mikið vesen að vera „umhverfisvænn“? Lausnamiðuð fræðsla um umhverfis- og loftslagsmál þar sem niðurstaðan er sú að grænn lífstíll er heilsusamlegri, ódýrari og bara betri. Skemmtimennt líka. (Hentar stofnunum, skólum, fyrirtækjum og litlum hópum. Praktískt, fræðandi og öfgalaust)

Fræðsla um loftslagsmál

Lausnir við loftslagsvandanum – Eflaust „fræðilegasta“ erindið sem ég hef haldið fyrir bæði fyrirtæki og stofnanir. Hér er stiklað á stóru um vísindin á bak við loftslagsbreytingar, á mannamáli að sjálfsögðu og þær fjölmörgu lausnir sem heimurinn er að vinna að núna. Bjartsýnisfyrirlestur með alvarlegum undirtóni.

Fjölskyldudagar hjá fyrirtækjum

Sniðugar og einfaldar tilraunir sem skemmta bæði börnum og fullorðnum. Varúð! Þú gætir lært eitthvað nýtt!

Kviss

Skemmtilegar og léttar spurningar fyrir fyrirtæki, hópa og stofnanir. Sævar hefur verið spurningahöfundur og dómari í Gettu betur í fimm ár.