Sara Dögg Ásgeirsdóttir

Sara hóf kvikmyndaferil sinn um tvítugt þegar henni bauðst hlutverk í Myrkrahöfðingja Hrafns Gunnlaugssonar. Hún hlaut verðlaun fyrir það hlutverk á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Puchon í Suður-Kóreu. Hún lærði síðar leiklist í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2005. Á meðan á náminu stóð bauðst henni hlutverk í sinni annarri kvikmynd, hlutverk Önnu í “Kaldaljós” eftir Hilmar Oddsson byggða á bók Vigdísar Grímsdóttu, sem hlaut Edduverðlaunin sem “Kvikmynd ársins” árið 2004.  Síðan þá hefur hún leikið bæði á sviði, í sjónvarpi og kvikmyndum. Sara fór fljótlega í verkefni í Borgarleikhúsinu eftir útskrift og hefur leikið þar í nokkrum uppsetningum bæði verkum á vegum leikhússins og hjá sjálfstæðum leikhópum. 

 Á meðal hlutverka í kvikmyndum og sjónvarpi er hlutverk Láru, aðalhlutverkið í  þremur seríum af þáttunum “Pressa “og hlaut hún Edduverðlaunin, sem “Leikona ársins” fyrir það hlutverk árið 2013. Nýverið lauk tökum á 8 þátta seríu “Vitjanir/Fractures”, í leikstjórn Evu Sigurðardóttur en þar fer Sara með aðalhlutverkið og er sú sería væntanleg á næsta ári. Einnig voru að klárast tökur á seinni seríu “Stellu Blómkvist” þar sem Sara heldur áfram að túlka hlutverk Dagbjartar og er sú sería væntanleg á þessu ári.  Kvikmynd Elfars Aðalsteinssonar “Sumarljós og svo kemur nóttin” eftir samnefndri bók Jóns Kalmans er í eftirvinnslu en þar fer Sara einnig með eitt aðalhlutverkanna.