Sigrún Edda Björnsdóttir (fædd 30.08.1958) útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands 1981 og hefur leikið um það bil eitt hundrað hlutverk á leiksviði og þar af fjölda aðalhlutverka. Sigrún hefur leikið jöfnum höndum gaman- og dramatísk hlutverk auk hlutverka í söngleikjum. Hún hefur verið fastráðin leikkona við Þjóðleikhúsið og nú við Borgarleikhúsið, auk þess að taka þátt í sýningum Alþýðuleikhússins, Leikfélags Íslands, Íslenska Dansflokksins og Vesturports. Sigrún Edda hefur leikið fjölmörg hlutverk í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum nú síðast í sjónvarpsþáttunum Ófærð, Stellu Blómkvist og Föngum auk þess að leika annað aðalhlutverkið í Afanum og aðalhlutverkið í Gullregni.
Sigrún Edda hefur fengið fjölmargar viðurkenningar á ferli sínum. Hún hefur fengið 11 tilnefningar til Grímunnar og þrisvar fengið Grímuverðlaunin fyrir aðalhlutverk, aukahlutverk og leikstjórn í útvarpi. Hún hefur fengið tilnefningar til menningarverðlauna DV fyrir fjögur aðalhlutverk. Auk þess hefur hún hlotið Stefaníustjakann sem er viðurkenning úr minningarsjóði frú Stefaníu Guðmundsdóttur.
Sigrún Edda er leikstjóri og hafa leikstjórnarverkefni hennar fengið tilnefningar til Grímunnar og ein Grímuverðlaun. Sem höfundur hefur hún skrifað vinsæla sjónvarpsþætti, barnabækur, leikgerðir fyrir útvarp, myndasögur og tölvuleiki.