Steinunn Ólína

Leikkonan Steinunn Ólína hefur í áraraðir stýrt ótal veislum, fundum og viðburðum. Reynsla hennar í leiklist og öðum verkefnum hefur eflt hana sem frábæran fundar- og veislustjóra.

Steinunn Ólína er einnig landsþekkt fyrir að opna umræðu um hluti sem aðrir hafa varast og óhrædd tjáð sig um ýmislegt í mannlegu eðli og samfélagi okkar sem aðrir hafa forðast að snerta. Samskipti fólks eru henni hugleikin enda snýst leikarastarfið að miklu leyti um rannsóknir á samböndum fólks á milli. Í stuttum fyrirlestri dregur Steinunn upp ýmislegt úr farteski sínu sem ætti að nýtast öðrum til að þora betur að standa með sjálfum sér og þannig axla ábyrgð á eigin vellíðan í lífi og starfi.

Upplýsingar og bókanir á bokanir@modurskipid.is

Fyrirlestur: Stattu með þér!

Á vinnustað er mikilvægt að þekkja sín mörk en ekki síst að læra að virða og skilja mörk annarra. Öll viljum við njóta virðingar og eiga þess kost að eiga í góðum samskiptum. Það gerum við með skýrum skilaboðum og hreinskilni til að koma í veg fyrir að finnast við vera misskilin eða útundan. Við gerum það líka með því að skilja að ekkert er óyggjandi rétt eða rangt heldur erum við öll ólík og berum okkur að með ólíkum hætti.

Er það alfarið á ábyrgð annarra, vinnufélaga, yfirmanna, að þér líði vel, að þú lendir ekki í kulnun á þínum vinnustað? Hvað getur eigið atferli sagt þér um það hver þú ert? Er í lagi að hafa ólíkar skoðanir á því hvernig hlutir eru framkvæmdir? Getum við lært að meta ólíkar aðferðir fólks sem er þó að vinna að sama markmiði? Getur það sem er framandi verið lærdómsríkt? Er spennandi og stundum nauðsynlegt að brjótast úr viðjum vanans?

Að standa með sjálfum sér snýst um að taka ábyrgð á starfsferli sínum og tryggja að framlag þitt sé metið og þar með þín vellíðan. Við megum ekki forðast það að setja fram þarfir og eðlilegar kröfur af ákveðni.

Stattu með þér! Ef þú stendur ekki með sjálfum þér, hversvegna ættu aðrir þá að gera það?

Fyrirlestur: Að eilífu, ástin!

Við búum í heimi þar sem ástin er verðlögð og skilgreind eins og hver annar varningur. Ástin á að veita þér öryggi, færa þér þægindi og helst velmegun, veita þér hamingju og ómælda vellíðan og helst þar til yfir lýkur. Hvernig á önnur manneskja að standa undir slíkum væntingum?

Er þessi útbreiddi misskilningur kannski undirrót óhamingjunnar?

Sú hugmynd að sambönd við annað fólk eigi á einhvern hátt að vera ábatasöm er reginskekkja. Ertu í ástarsambandi við maka þinn eða er sambandið meira svona hentugur fyrirtækjarekstur? Er ekki stærsta verkefni okkar allra að hætta að freista þess að breyta öðrum? Er ekki fyrsta skrefið að læra að þekkja og elska sjálfan sig. Svo ástin megi dafna þarf að gera grein fyrir þörfum sínum og þrám óttalaust og taka því ef viðkomandi hafnar þér. Og hvað ef það gerist? Er það svo slæmt? Þú ert þá frjáls og það sem meira er, þú hefur frelsað aðra manneskju frá því að hanga í sambandi með einhverjum sem kann ekki að meta þig!