Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir útskrifaðist frá Drama Centre London árið 1990. Hún hefur síðan þá leikið fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar, Leikfélagi Reykjavíkur, leikhópum og í kvikmyndum og sjónvarpi. Hún hefur einnig sent frá sér bækur, stýrt sjónvarpsþáttum og var útgefandi og ritstjóri Kvennablaðsins. 

Steinunn Ólína fer með eitt af aðalhlutverkum í þáttaseríunum Húsó (2023) og Afturelding (2023) og kvikmyndinni Leynilögga (2021). Meðal fleiri nýlegra verkefna má nefna Vitjanir (2022), Verbúðin (2021), Svörtu sandar (2021) og Stella Blómkvist (2019).

Hún fór með hlutverkin Inga/Edda í Sjö Ævintýri um skömm eftir Tyrfing Tyrfingsson, Señora Solara í Framúrskarandi vinkona, þá fór hún einnig með hlutverk í Nashyrningunum, Efa, Pétri Gaut, My Fair Lady, Gauragangi, Fávitanum, Villiöndinni, Þremur systrum, Sjálfstæðu fólki, Hægan, Elektra, og Draumi á Jónsmessunótt.

Steinunn Ólína hefur hlotið fjölmargar tilnefningar og verðlaun, þ.á.m. Grímuverðlaunin fyrir Ríkarð III og tilnefningu fyrir Nashyrningana og Efa. Hún hlaut Edduverðlaunin fyrir Fanga og Rétt. Þá hlaut Steinunn einnig hin virtu FIPA D’OR verðlaun fyrir hlutverk sitt í Rétti.