Sveinn Ólafur Gunnarsson

Sveinn Ólafur Gunnarsson er fæddur 1976, borinn og barnfæddur Breiðhyltingur. Hann lærði íslensku og heimspeki í Háskóla Íslands og smitaðist illa af leiklistarbakteríunni í Stúdentaleikhúsinu. Sveinn útskrifaðist frá leiklistardeild LHÍ árið 2006. Frá útskrift hefur Sveinn unnið jöfnum höndum á sviði, kvikmyndum og sjónvarpi. Af sviðsuppfærslum sem hann hefur tekið þátt í má nefna; Lífið, Rocky, Er ég mamma mín, Fool for love, Illsku og Sóley Rós en fyrir þrjú síðastnefndu hlutverkin var hann tilnefndur til Grímuverðlauna fyrir leik í aðalhlutverki og aukahlutverki. Af leik í sjónvarpi og kvikmyndum má nefna þáttaraðirnar Pressu og Pabbahelgar og kvikmyndirnar Vonarstræti, Héraðið, Hrúta, Málmhaus, Á annan veg, Mannasiði og Hjartastein. Fyrir leik sinn í  fjórum síðast nefndu kvikmyndunum var Sveinn Ólafur tilnefndur til Edduverðlauna sem besti leikari í aðal- og aukahlutverki.