Þóra Karítas er leikari, höfundur og framleiðandi. Hún stundaði nám við The Webber Douglas Academy of Dramatic Art í London og hefur leikið fjölmörg hlutverk í leikhúsi auk hlutverka í kvikmyndum og sjónvarpi. Hún hefur hlotið tilnefningu til Grímuverðlaunanna fyrir túlkun á May í Fool for Love og tilnefningu til Eddunnar fyrir leik sinn í sjónvarpsseríunni Ástríði. Þóra Karítas hefur verið handritshöfundur og haft umsjón með fjölmörgum sjónvarpsþáttum í gegnum tíðina nú síðast þættinum Hver ertu? sem er til sýnis hjá Sjónvarpi Símans. Auk þess var Þóra um langt skeið umsjónarmaður ferðaþáttanna Unique Iceland sem voru framleiddir af Saga Film fyrir Icelandair. Þóra Karítas hefur skrifað tvær bækur sem gefnar eru út hjá Forlaginu. Annars vegar sannsöguna Mörk sem var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna árið 2016 og hins vegar Blóðberg sögulega skáldsögu um Þórdísi Halldórsdóttur sem var drekkt í Drekkingarhyl árið 1618.