Þröstur Leó Gunnarsson

Þröstur Leó, leikari og sjómaður, ólst upp á Bíldudal. Hann útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1985 og hefur síðan þá starfað jöfnum höndum í kvikmyndum og leikhúsi, bæði í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Þröstur Leó hefur leikið í á sjöunda tug sjónvarps- og kvikmyndaverkefna og hefur leikstýrt 4 verkum, þar á meðal verkinu Við borgum ekki, við borgum ekki, sem sýnt var í Borgarleikhúsinu

Þröstur Leó hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir verk sín, m.a. Grímuverðlaunin fyrir hlutverk sín í Killer Joe, Ökutímum og Koddamanninum, Edduverðlaunin fyrir Nóa albínóa og Brúðgumann, og Stefaníustjakann fyrir störf sín að leiklist árið 2009.

Áhugamál Þrastar sem hann sinnir samhliða leiklistinni eru mótorhjól og veiði.