Vignir Rafn Valþórsson

Vignir Rafn Valþórsson er fæddur 1978 í Lundi í Svíþjóð en fluttist ungur í Kópavoginn þar sem hann sleit barnsskónum og varð að manni (þannig lagað). Vignir Rafn útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ árið 2007 og starfaði töluvert í Þjóðleikhúsinu fyrstu árin og lék þar í 9 sýningum, þ.a.m. Frida… viva la vida, Sumarljós, Sá Ljóti, Gott Kvöld og Kardemommubærinn. Vignir Rafn stofnaði leikhópinn Óskabörn ógæfunnar við annan mann árið 2012 og hefur leikstýrt öllum uppfærslum hópsins síðan þá. Á meðal verka óskabarnanna má telja Rocky!, Hans Blær, Illska og Bláskjár, en fyrir tvö síðastnefndu verkin var Vignir tilnefndur sem Leikstjóri ársins á Grímuverðlaununum. Alls hefur Vignir Rafn leikstýrt 16 sýningum í atvinnuleikhúsi hjá sjálfstæðum hópum, Leikfélagi Akureyrar og Borgarleikhúsinu. Samhliða leikstjórnarverkefnum hefur Vignir leikið í sjónvarpi og kvikmyndum, má þar nefna Ófærð 2, Svartur á leik, Næturvaktin, Ríkið, Hlemmavideó og Ligeglad, en Vignir var einn af höfundum þess síðastnefnda og hlaut Ligeglad Edduverðlaunin sem Sjónvarpsþáttur ársins árið 2017.