Björg Magnúsdóttir er rithöfundur, fjölmiðlakona og fyrirlesari sem hóf feril sinn með pistlaskrifum á Blaðinu um tvítugt enda hefur hún alltaf haft miklar skoðanir á mönnum og málefnum. Hún er stjórnmálafræðingur að mennt með MA gráðu í hagnýtri menningarmiðlun. Björg hefur gefið úr tvær skáldsögur, Ekki þessi týpa og Þessi týpa sem fjalla um veruleika ungra, reykvískra kvenna á mótunarskeiði. Bækurnar voru seldar til Þýskalands og komu þar út á vegum forlagsins Suhrkamp. Síðustu ár hefur hefur hún starfað sem þáttastjórnandi í útvarpi og sjónvarpi á RÚV meðal annars í Söngvakeppninni, Kappsmáli og Morgunkaffinu á Rás 2. Samhliða fjölmiðlastörfum hefur hún sinnt skrifum. Haustið 2020 fer í loftið hennar fyrsta sjónvarpssería, Ráðherrann og næst á eftir kemur serían Systrabönd. Báðar seríurnar eru framleiddar af Sagafilm og skrifaðar af teymi handritshöfunda.